Mér finnst gott að grenja og hefur alla tíð verið laust tárið, hvort heldur er vegna gleði, sorgar eða bara af því stundum hef ég ekkert betra að gera en að taka hraustlegan grát. Það bregst ekki að ég er yfirleitt eins og nýsleginn túskildingur eftir slíka iðju og mæli með því við samferðafólk mitt að gráta hvar og hvenær sem það telur sig hafa þörf fyrir slíkt.
Í seinni tíð hef ég orðið talsvert meyrari og eftir að lítil börn fóru að hrúgast allt í kringum mig og mína nánustu reynist mér sífellt auðveldara að vatna músum í tíma og ótíma. Enn telst það á mörkum þess að vera félagslega ásættanlegt að gráta á ákveðnum stöðum í samfélaginu. Það má gráta í bíó, á horninu á bak við Ölstofuna, á sjúkrahúsum og í brúðkaupum. Það er hins vegar litið hornauga að grenja við hannyrðarekkann í Hagkaupum, þegar maður er úti að hlaupa eða með bílinn á verkstæði. Fyrir þá sem ekki vilja láta aðra sjá sig grenja luma ég á nokkrum góðum ráðum. Ef erfiður dagur er í vændum, eða bara ef ég hef stigið fram úr rúminu í óstuði þann morguninn, finnst mér gott að klæðast rúllukragapeysu. Svo rúlla ég kraganum alveg upp yfir hvirfil svo ég geti grenjað í ró og næði án þess að aðrir þurfi uppá að horfa. Annar klassíker í þessum málum er læsa að sér inni á baðherbergi og skrúfa frá sturtunni og tárakirtlunum samtímis og bera við gláku ef farið er að grennslast fyrir um uppruna rauðbólginna augna.
Á dögunum lagði ég einfalda könnun fyrir vinahópinn þar sem þau voru beðin um að nefna það í daglegu lífi sem helst fær þau til að gráta. Þar deildu toppsætinu bambar sem sleppa naumlega undan æstri ljónahjörð og gamalt fólk að haldast í hendur svo möguleikarnir til að tjá tilfinningar sínar með tárum eru í raun óþrjótandi.
Við leggum oft óþarflega mikið upp úr því að vera sterk og harka af okkur. Það hefur verið talið til galla að grenja og þykir oft bera vott um veikleika í karakter. En ég er með kenningu. Kannski eru þeir sem eru hræddir við að sýna tilfinningar sínar ekkert sérstaklega sterkir. Kannski felst raunverulegi styrkurinn í því að bera líðan sína á borð, teygja sig í tissjú-pakkann og taka góðan grát.